haus í fréttapóst.jpg
rullustigi.jpg

Fréttapóstur sendur 22.3.2016 á %%emailaddress%%

Breytingar á stjórn SVÞ

Á aðalfundi Samtaka verslunar og þjónustu sem haldinn var, fimmtudaginn 17. mars, var kosið um þrjú sæti í stjórn samtakanna. Kosningu hlutu Jón Björnsson, Festi hf.,  Jón Ólafur Halldórsson, Olíuverzlun Íslands hf. og Kjartan Örn Sigurðsson, frá verslunin Kvosin ehf.

Aðrir í stjórn samtakanna eru Margrét Sanders, Deloitte ehf., sem var endurkjörin formaður samtakanna til tveggja á síðasta aðalfundi, Árni Stefánsson hjá Húsasmiðjunni, Margrét G. Flóvenz frá KPMG og Ari Edwald frá MS.

Á fyrsta fundi stjórnar SVÞ eftir aðalfund var Jón Björnsson, kjörinn varaformaður samtakanna.

Úr stjórn SVÞ gengu Áslaug Hulda Jónsdóttir, formaður Samtaka Sjálfstæðra skóla, Gestur Hjaltason frá ELKO og Sigríður Margrét Oddsdóttir frá Já.

Lesa meira...

Frá ráðstefnu SVÞ - Hvað hefur örvandi áhrif á kauphegðun?

Húsfyllir var á ráðstefnu SVÞ sem haldin var á Hilton Reykjavík Nordica fimmtudaginn 17. mars sl. Ari Eldjárn kynnti fyrirlesara og kitlaði hláturtaugar ráðstefnugesta eins og honum einum er lagið.

Í ávarpi Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra gætti bjartsýni gagnvart íslenskri verslun sem hann taldi að ætti að geta staðið verslun í nágrannalöndum jafnfætis á samkeppnisgrundvelli í kjölfar afnáms tolla og vörugjalda. Kom einnig fram í máli ráðherra að vísitölur sýndu að verslunin væri að skila þessum ávinningi til neytenda. Þá sagðist ráðherra vera ósáttur við tilboðsauglýsingar Fríhafnarinnar og taldi að ríkið ætti að draga úr umsvifum sínum á þessum markaði.

Margrét Sanders formaður SVÞ lagði áherslu á útvistun verkefna frá hinu opinbera til einkageirans í erindi sínu undir yfirskriftinni „Einkarekstur eða opinber rekstur? – Hugarfarsbreytingar er þörf“. Kom fram í máli formanns að ríkið ætti að huga betur að fjármálum sínum og þyrfti að greina betur hvort það borgi sig alltaf að ráða starfsmann frekar en að úthýsa fleiri verkefnum og kaupa þjónustu frá utanaðkomandi sérfræðingum.

Ken Hughes, sérfræðingur í neytenda- og kauphegðun,  sló síðan botninn í ráðstefnuna með frábæru erindi undir yfirskriftinni“Shopper Marketing & Shopper Centricity“. Í erindi sínu sýndi Ken ráðstefnugestum hvað það er sem fær neytendur til að kaupa og hvernig er hægt að fá þá til að kaupa meira.


Lesa meira...


SVÞ kvarta undan starfsemi Fríhafnarinnar

Undanfarin ár hafa SVÞ haft til skoðunar ýmsa þætti varðandi starfsemi Fríhafnarinnar ehf. í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Hafa samtökin gagnrýnt þá mismunun sem sú opinbera starfsemi hefur í för með sér gagnvart almennri verslun utan veggja flugstöðvarinnar. Gagnrýnin hefur m.a. snúið að niðurgreiddri verslunarstarfsemi hins opinbera sem og markaðssetningu verslana fyrirtækisins, þ.m.t. pöntunarþjónusta sem boðið er upp á. Þá hafa samtökin bent á að með þessum verslunarrekstri er ríkið í beinni samkeppni við aðrar verslanir hér á landi og hafa samtökin í því samhengi bent á að þessar verslanir Fríhafnarinnar ehf. gera út á þennan aðstöðumun í markaðssetningu sinni þar sem auglýst er að verð er allt að fimmtíu prósent lægra í fríhöfninni en í miðbæ Reykjavíkur.

Þessu til viðbótar hafa SVÞ gagnrýnt pöntunarþjónustu verslana Fríhafnarinnar ehf. en samtökin telja að með þeirri þjónustu, sem á margan hátt er sambærileg netverslun, þar sem hver sem er getur pantað vörur án þess þó að fela í sér það skilyrði að sá hin sami sæki þær vörur, hafi þessar verslanir farið inn á hinn almenna markað utan flugstöðvarinnar og því sé sú starfsemi í virkri samkeppni á þeim markaði.


Lesa meira...


Búvörusamningar sæta mikilli gagnrýni

Fundur sem haldinn var í byrjum þessa mánaðar um nýgerða búvörusamninga leiddi vel í ljós hversu illa var staðið að undirbúningi þeirra samninga. Að þessum fundi stóðu fjölmörg hagsmunasamtök, bæði atvinnurekenda og launþega, m.a. SVÞ. Viðræður, milli stjórnvalda og Bændasamtaka Íslands um gerð nýrra búvörusamninga höfðu þá staðið yfir allt frá því s.l. haust.

Lengst af bárust litlar fréttir af gangi viðræðnanna og var það raunar ekki fyrr en skömmu fyrir áramót, að hópur hagsmunaaðila óskaði eftir því að fá upplýsingar um stöðu viðræðnanna. Þegar stjórnvöld hófu að gefa upplýsingar um efni og innihald væntanlegra samninga kom í ljós að nær ekkert var tekið tillit til annarra hagsmuna en bænda eingöngu. Þrátt fyrir að þarna væri verið að véla um gífurlega langan samning sem snérist um háar fjárhæðir, þótti ekki ástæða til að kalla aðra aðila að málinu, þó ekki væri nema til ráðgjafar.Lesa meira...

Sala áfengis - versluninni er treystandi

Í umræðunni um fyrirliggjandi lagafrumvarp til breytinga á sölu áfengis hafa þau sjónarmið verið áberandi að verslunin muni ekki sýna ábyrgð í verki þegar kemur að þeim ströngu skilyrðum sem gilda um sölu áfengis. Þeir sem lengst hafa gengið halda því eindregið fram að sala áfengis í almennum verslunum muni leiða til aukins aðgengis og tilslökunar á sölu og afhendingu á þeirri neysluvöru sem áfengið er.

Í þessari umræðu er mikilvægt að greina á milli þeirrar gagnrýni sem byggist á lýðheilsusjónarmiðum og hins vegar þeirrar gagnrýni sem sett hefur verið fram af einstaka hagsmunaaðilum sem halda því fram að aukin samkeppni ógni því þægilega umhverfi sem þeir sumir hverjir búa við í viðskiptum þeirra við einokunarfyrirtæki ríkisins.


Lesa meira...

Frá morgunverðarfundi um netverslun

  • 73% Íslendinga hafa verslað á netinu.
  • Erfitt að finna einstaklinga á aldursbilinu 18-24 ára sem ekki hafa verslað á netinu.
  • Það að reka netverslun og verslun saman eykur sölu.
  • Íslenskar verslanir þurfa að bæta tiltekin atriði ef þær vilja ekki að erlendar netverslanir taki yfir markaðinn.


Á morgunverðarfundinum Netverslun: nýtum tækifærin þann 24. febrúar sl.  var farið um víðan völl þegar kemur að málefnum er varða netverslun á Íslandi. Fundurinn var mjög fjölsóttur en um 160 manns úr atvinnulífinu mættu sem sýnir þann gríðarlega áhuga sem Íslendingar hafa á netverslun. Að fundinum stóðu Samtök verslunar og þjónustu í samstarfi við Póstinn.

Ólafur Elínarson, viðskiptastjóri hjá Gallup, kynnti nýjar tölur um íslenska netverslun. Fulltrúar tveggja íslenskra netverslana, Rakel Hlín Bergsdóttir eigandi Snúran.is og Guðrún Ósk Sigurjónsdóttir vefstjóri Elko, sögðu frá reynslu sinni af því að reka netverslun og hefðbundna verslun samhliða.

Að lokum tók til máls Peter Somers, en hann er einn af stofnendum ráðgjafafyrirtækisins SKS Partners sem sérhæfir sig í netverslun.


Lesa meira...


Kuðungurinn 2015

Umhverfisviðurkenning umhverfis- og auðlindaráðuneytisins
Úthlutunarnefnd á vegum umhverfis- og auðlindaráðuneytisins óskar eftir tilnefningum um fyrirtæki eða stofnanir, sem vegna verka sinna og athafna á síðasta ári, er þess verðugt að hljóta Kuðunginn fyrir árið 2015. Kuðungurinn verður afhentur í tengslum við dag umhverfisins 25. apríl.

Óskað er eftir því að stutt greinargerð fylgi með tilnefningunum. Fyrirtæki og stofnanir geta hvort heldur tilnefnt sig sjálf eða verið tilnefnd af öðrum. Til að koma til álita við veitingu Kuðungsins þarf fyrirtækið eða stofnunin að hafa skarað fram úr á einu eða fleiri eftirtöldum sviðum: Umhverfisstjórnun, innleiðingu nýjunga í umhverfisvernd, hreinni framleiðslutækni, lágmörkun úrgangs, mengunarvörnum, umhverfisvænni vöruþróun, framlagi til umhverfismála eða vinnuumhverfi.

Lesa meira...

Mikil velta á byggingavörum í febrúar

Samkvæmt tilkynningu frá Rannsóknasetri verslunarinnar var velta í byggingavöruverslun 16,7% meiri í febrúar en í sama mánuði í fyrra eða rúmlega 20% meiri á föstu verðlagi. Vetrarmánuðirnir eru jafnan rólegir í byggingavöruverslun en veltan í febrúar var sambærileg veltu aprílmánaðar undanfarin tvö ár á föstu verðlagi. Má því segja að vorið í byggingavöruverslun komi nú tveimur mánuðum á undan áætlun. Verð byggingavara var nokkuð lægra í liðnum mánuði en í febrúar í fyrra og hafa sem dæmi verkfæri lækkað í verði um ríflega 7% frá fyrra ári en efni til viðhalds hækkað um tæpt prósent.

Töluverð veltuaukning hefur verið í húsgagnaverslun undanfarna mánuði og var veltan í febrúar 38,7% meiri en á sama mánuði í fyrra. Séu síðustu tólf mánuðir bornir saman við tólf mánaða tímabilið þar á undan hefur vöxtur í sölu húsgagna verið 17,4% en 19,2% á föstu verðlagi. Verðlag húsgagna hækkaði nokkuð í febrúar frá fyrra ári, eða um 4,3%. Má þó geta þess að verðlag síðustu tólf mánaða er um 1,4% lægra að meðaltali en verðlag á því tólf mánaða tímabili sem á undan kom.

Fréttatilkynning RSV.

Lesa meira...

Smelltu hér ef þú vilt vera fjarlægð(ur) af póstlistanum

SVÞ :: Borgartúni 35 :: 105 Reykjavík :: Sími: 511 3000
Tölvupóstur: svth@svth.is : www.svth.is
Ritstjóri: Guðbjörg S. Jónsdóttir
c3.gif c4.gif