Fréttapóstur SVÞ
SVÞ - mynd
1
1
Neytendur njóta afnáms vörugjalda - á því er ekki vafi

verlagsvstala_-_blaagrein_05_2015.pngBlaðagrein birt í Fréttablaðinu 27.5.2015 - Höfundar: Margrét Sanders, formaður SVÞ og Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri SVÞ
Um sl. áramót voru vörugjöld afnumin af ýmsum algengum vörum á borð við byggingaefni, rafmagnstæki og bifreiðavarahluti, að ógleymdum matvörum sem innihalda sykur eða sambærileg efni (vörugjöld voru reyndar lögð á ýmsar matvörur án sykurs!!).  Þar með náðist sigur í einu helsta baráttumáli Samtaka verslunar og þjónustu undanfarin ár, en verslunin í landinu lagði mikla áherslu á að þessi óheillaskattur yrði afnumin,  enda hafði  hann allan þann langa tíma sem hann var við lýði, mjög skaðleg áhrif á samkeppnisstöðu íslenskrar verslunar.

Ekki er nokkur minnsti vafi á því að neytendur í landinu njóta og munu njóta þessara mikilvægu skattkerfisbreytinga, enda stóð ekki á viðbrögðum margra verslunarfyrirtækja strax þegar ríkisstjórnin kynnti áform sín um afnám vörugjalda, við framlagningu fjárlagafrumvarps fyrir árið 2015.  Mörg þeirra ákváðu að fella þegar niður vörugjöld að hluta eða öllu leyti á viðkomandi vörum, þó að ekki væri tryggt að afnám gjaldanna yrði að veruleika fyrr en fjárlagafrumvarpið var samþykkt sem lög frá Alþingi í desember s.l. Þessi skjótu viðbrögð verslunarfyrirtækjanna sýna betur en nokkuð annað hversu ákveðin þau voru í því að láta neytendur njóta hinna fyrirhuguðu breytinga sem allra fyrst. Áhrif af afnámi vörugjaldanna koma einnig með greinilegum hætti fram í vísitölumælingum Hagstofu Íslands þegar fjórir mánuðir voru liðnir frá því að lögin sem afnámu vörugjöldin tóku gildi (sjá töfluna hér til hliðar).

Lesa meira...


Hús atvinnulífsins flytur í Vatnsmýrina

fundur_flksins.pngDagana 11. til 13. júní mun Hús atvinnulífsins flytja í Vatnsmýrina og reisa Tjald atvinnulífsins. Þar verður boðið upp á fjölbreytta og skemmtilega dagskrá um nauðsyn öflugs atvinnulífs til að fólk geti notið  góðra lífskjara. Allt áhugafólk atvinnulífið er velkomið í tjaldið en uppátækið er hluti af Fundi fólksins sem fram fer í Norræna húsinu og næsta nágrenni þess.

Um er að ræða þriggja daga líflega hátíð um samfélagsmál að norrænni fyrirmynd. Opin skoðanaskipti eru leiðarstefið en á dagskránni verða fundir, málþing, fyrirlestrar, tónlistaratriði og líflegar uppákomur frá morgni til kvölds, bæði innan- og utandyra. Dagskráin í Tjaldi atvinnulífsins verður birt á næstunni.

 

Mismunun varðandi innheimtu á þáverandi sykurskatti
sykurmolar.jpgFréttatilkynning send til fjölmiðla 20.5.2015
SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu sendu þann 25. mars 2013 kvörtun á Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) þar sem vakin var athygli stofnunarinnar á mismunun á innheimtu á vörugjöldum, nánar tiltekið svokölluðum sykurskatti, en að mati samtakanna fól sú innheimta í sér mismunun á milli innlendra framleiðenda og innflytjenda. Sykurskatturinn var aflagður um síðustu áramót þegar lög um vörugjald voru felld niður. Eftir standa þó álitamál um hvort þáverandi innheimta sykurskattsins hafi falið í sér mismunum hvað varðar innheimtu þeirra gjalda.

Með umræddu fyrirkomulagi var aðilum í raun mismunað eftir því hvort um var að ræða vöru sem framleidd var hér á landi eða fullunnin í öðru aðildarríki EES-samningsins. Nánar tiltekið fólst sú mismunun í því að innlendum framleiðendum stóð til boða að greiða umrædd vörugjöld eftir á og í samræmi við það magn sem sannarlega var nýtt hverju sinni. Þannig þurfti ekki að greiða fyrir þær vörur sem t.d. döguðu uppi á lager framleiðenda. Hins vegar bar innflytjendum að greiða við innflutning vörugjald á fullunnum vörum og taka um leið á sig öll afföll sem verða á hinni gjaldskyldu vöru.

Lesa meira...
 

Hver ferðamaður eyðir 15% meira en í fyrra
kortavelta_e._tgjaldalium_04_2015.pngÍ tilkynningu frá Rannsóknasetri verslunarinnar kemur fram að erlendir ferðamenn greiddu með greiðslukortum sínum 9,3 milljarða króna í apríl sem er 39,4% hærri upphæð en í sama mánuði í fyrra. Líkt og undanfarna mánuði var hæsti útgjaldaliðurinn greiðslur til innlendra ferðaskipuleggjenda vegna ferða um landið. Fyrir slíkar ferðir greiddu ferðamenn 2,5 milljarða króna í mánuðinum sem er 113% hærri upphæð en í apríl í fyrra. Þá jókst erlend kortavelta vegna gistingar um 37% á milli ára. Erlend kortavelta í íslenskum verslunum nam 1,2 milljarði króna í apríl sem er 14% vöxtur frá sama mánuði í fyrra. Mestur vöxtur erlendrar kortaveltu í verslunum var í gjafa- og minjagripaverslunum, eða sem nam 43%.

Athygli vekur að í apríl var 15,3% hærri greiðslukortavelta á hvern erlendan ferðamann sem kom til landsins heldur en í apríl fyrir ári síðan, ef miðað er við fjölda ferðamanna samkvæmt talningu Ferðamálastofu í Leifsstöð. Svisslendingar og Rússar eru þeir sem eyða mestu á hvern einstakling þegar borin eru saman þjóðerni ferðamanna.

1,1 milljarður í bílaleigur og bensín
Athyglisvert er að greina ferðamáta erlendra gesta innanlands þegar höfð er til hliðsjónar velta greiðslukorta eftir útgjaldaliðum. Samkvæmt útgjaldatölum virðast þeir ferðamenn sem ferðast á eigin vegum helst kjósa að ferðast í bílaleigubílum. Næst hæstum upphæðum er varið í flug, í þriðja sæti eru rútuferðir og að lokum ferjusiglingar.

Lesa meira...
 

Verðkannanir ASÍ – verðlagseftirlit á villigötum
asi.jpgFréttatilkynning send á fjölmiðla 11.5.2015
Verðlagseftirlit ASÍ hefur nú birt verðkannanir sínar á rafmagnstækjum og  byggingavörum , vörum sem áður báru vörugjöld en sem kunnugt er féllu vörugjöld af algengum rafmagnstækjum og fjölmörgum byggingavörum niður um s.l. áramót.  Jafnframt lækkaði virðiaukaskattur af þessum vörum úr 25,5%  í 24%.

Í gegn um tíðina hafa Samtök verslunar og þjónustu gagnrýnt þau óvönduðu vinnubrögð sem ASÍ viðhefur gjarnan við gerð verðkannana.  ASÍ hefur hins vegar tekið öllum ábendingum samtakanna um bætt vinnubrögð fálega og staðhæft að allar verðkannanir þeirra séu unnar af fagmennsku.  Þessar nýjustu verðkannanir ASÍ falla þó klárlega í hóp með þeim sem bera vott um litla fagmennsku og lítinn vilja til að upplýsa neytendur um staðreyndir máls.

Skýrt dæmi um óvönduð vinnubrögð ASÍ er viljaleysi þeirra til upplýsa til hvaða vara nákvæmlega verðkönnunin tekur, sem gerir það útilokað fyrir þau fyrirtæki sem hlut eiga að máli að bera hönd yfir höfuð sér og svara með nákvæmni verðþróun einstakra vara.  Þetta gerir ASÍ hins vegar mögulegt að kasta fram almennum fullyrðingum um hvernig verð hafa þróast og gera oft ekki annað en að gefa neytendum villandi og jafnvel rangar upplýsingar. Læðist óneitanlega að manni sá grunur að hér sé það tilgangurinn sem helgar meðalið.
Samtök verslunar og þjónustu vilja í tilefni af þessu benda á eftirfarandi staðreyndir:

1.    Fljótlega eftir að fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar var lagt fram þann þann 9. september 2014, þar sem lagt var til afnám almennra vörugjalda um áramótin, lækkuðu fjölmargar verslanir verð á stórun hluta þeirra rafmagnstækja og byggingavara sem báru vörugjöld. Lækkun á verði þessara vara hefur því í mörgum tilfellum verið komin fram þegar ASÍ gerir verðkönnun sína í október.  Samanburður á verði í október annars vegar og í apríl hins vegar gefur því alls ekki rétta mynd af verðþróun þessara vara.  Einhverra hluta vegna sá ASÍ ekki ástæðu til að greina frá þessu.

Lesa meira...
 

Dró úr vexti í apríl
prosentutakn.jpgSamkvæmt fréttatilkynningu frá Rannsóknasetri verslunarinnar  hægði heldur á þeim vexti sem verið hefur í sölu smásöluverslana undanfarna mánuði í apríl síðastliðnum. Þannig dróst velta dagvöruverslana saman um 4,0% að raunvirði og 1,8% samdráttur var í sölu á byggingavörum. Enn var þó vöxtur í raftækjaverslun sem nam 14,4% að raunvirði frá sama mánuði í fyrra og húsgagnasala var 8,7% meiri en í apríl í fyrra að raungildi. Þá jókst sala á áfengi um 5,1%.

Ýmsar ástæður geta verið fyrir minni sölu dagvöruverslana en í fyrra, eins og tímasetning páska og vikudagamunur. Leiðrétt fyrir vikudaga- og árstíðabundna þætti jókst salan um 0,4% frá apríl í fyrra. Þá má ekki gleyma að veðurfræðilegir þættir hafa ávallt einhver áhrif á sölu dagvöru og gæti vorhretið í apríl síðastliðnum haft einhver áhrif á minni sölu. Verð á dagvöru var 1,4% hærra í apríl síðastliðnum en í sama mánuði í fyrra, sem rekja má til skattbreytinga á matvæli sem urðu um síðustu áramót. Hins vegar lækkaði verðið um 0,1% frá mars, mánuðinum á undan.
Sala á fötum var 2% minni í apríl síðastliðnum en í sama mánuði í fyrra. En þegar horft er til sölunnar síðustu fjóra mánuði í samanburði við sömu fjóra mánuði í fyrra kemur í ljós að samanlögð raunvelta fataverslana á þessu fjögurra mánaða tímabili hefur aukist um 3,9%. Þetta er þó mun minni aukning í samanburði við þann vöxt sem átt hefur sér stað í öðrum tegundum sérvöruverslana.

Fréttatilkynning RSV.

Lesa meira...
 

Svikafyrirtæki lifna við á sumrin

svindl.jpgÞað hefur borið á því að undanförnum árum að það lifni yfir svikastarfsemi sem beinist að því að fá fyrirtæki til að samþykkja skráningu í gagnabanka, að því er virðist án endurgjalds, en í smáu letri sem fylgir skilmálum kemur fram að greiða þurfi miklar fúlgur fyrir skráninguna. Þeir sem hafa þessi svik að atvinnu leggja á sig aukavinnu á sumarleyfistímum fyrirtækja þar sem reynsluleysi sumarafleysingafólks hefur reynst drjúg tekjulind.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur birt viðvörun um svindl af þessu tagi á fésbókarsíðu sinni: https://www.facebook.com/logreglan/posts/905938509469698

 

Sumarlokun og þjónustutími skrifstofu yfir sumarmánuðina

sl.pngSkrifstofa SVÞ verður lokuð dagana 20. júlí til og með 31. júlí nk. Ef þið eigið áríðandi erindi við samtökin á þessum tíma má nálgast framkvæmdastjóra í síma 820 4500 eða á netfang: andres@svth.is .

Þjónustutími skrifstofu í sumar:

Í júní, júlí (ekki þegar sumarlokun er)  og fram til 17. ágúst - mánudaga til föstudaga frá 8:00 - 16:00

 

 






1
 


SVÞ - Samtök verslunar og þjónustu - Borgartúni 35 - 105 Reykjavík - svth@svth.is - www.svth.is

1

Þín áskrift:
[SUBSCRIPTIONS]